Komum til lækna hefur fjölgað mikið á síðustu níu árum en hún hefur ekki verið í takt við almenna fólksfjölgun, fjölgun lækna og framlag ríkisins til heilbrigðismála á sama tímabili. Skiptar skoðanir eru um hvað veldur þessari þróun en sem stendur vinnur heilbrigðisráðuneytið að úrbótum í kerfinu sem miða að því að tengja kostnað betur við veitta þjónustu.

Nýlega hélt heilsuhagfræðingurinn Gunnar Alexander Ólafsson erindi á fundi Landsbankans um horfur í efnahagsmálum þar sem hann velti fyrir sér stöðu og framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins. Þá sagði hann að notkun á heilbrigðisþjónustunni hefði aukist töluvert á síðustu árum en að margir þættir gætu skýrt þá þróun. Þá nefndi hann m.a. í því ljósi að mikið valfrelsi sjúklinga um heilbrigðisþjónustu gæti verið mögulegur áhrifaþáttur auk þess sem skortur á samskiptum á milli ólíkra stofnana innan heilbrigðiskerfsins gæti einnig verið til þess fallið að auka álag á kerfinu.

Skiptar skoðanir eru á því hvað veldur þessari þróun og hvernig er hægt að sporna við henni. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist hafa tekið eftir þessari þróun þegar hann tók við embættinu en hann segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að heilbrigðiskerfið hefði ekki nægilega yfirsýn eða stjórn á því hvar, hvernig og hvenær kostnaður í kerfinu verður til. Þá segist hann ekki vera þeirrar skoðunar að valfrelsi sjúklinga í kerfinu sé of mikið.  „Ég er þeirrar skoðunar að því meira val sem sjúklingarnir hafa, þeim mun betra, svo fremi sem þjónustan sem við sækjum standist kröfur um öryggi og gæði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .