Fjármálastöðugleikaráð telur nauðsynlegt fyrir eftirlitsstofnanir að fylgjast vel með innleiðingu nýs tölvukerfis Reiknistofu Bankanna (RB) sem Landsbankinn hefur innleitt og Íslandsbanki mun innleiða nú á fyrstu mánuðum ársins.

Í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um meginþætti í störfum fjármálastöðugleikaráðs árið 2017 segir að mikil smitáhrif geti fylgt innleiðingu á nýju greiðslu- og innlánakerfi RB raungerist áhætta. Jafnframt að álag fylgi innleiðingu nýrra fjármálainnviða.

Reiknistofa bankanna gerði samning við Sopra Banking Software árið 2015 um innleiðingu nýs innlána- og greiðslukerfis á Íslandi. Landsbankinn innleiddi kerfið í nóvember síðasta árs en búist er við að það auki rekstrarhagkvæmni til lengri tíma litið líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um . Kerfinu er jafnframt ætlað að auðvelda tengingar við önnur kerfi og innleiðingu nýrra lausna.