Skuldatryggingaálag á fjármálafyrirtæki í Evrópu hefur almennt lækkað verulega í dag og þannig má nefna að Itraxx-vísitalan, sem mælir álagið á evrópska banka og fjármálafyrirtæki hefur lækkað 25 punkta í um 107 punkta.

Tryggingaálagið á íslensku bankana hefur lækkað enn meira í punktum talið eða um 50 punkta samkvæmt „kvótum” Royal Bank of Scotland frá því í dag.

Svo virðist sem almennt betri stemming á markaði, m.a. vegna frétta frá Bandaríkjunum, hafi leitt til lækkunar á skuldatryggingaálaginu í dag.