Álag á skuldatryggingar (e.credit default swaps) fimm ára skuldabréfa Kaupþings banka lækkaði um ellefu punkta í viðskiptum á CDS-markaði í dag og endaði í 56 punktum, samkvæmt upplýsingum frá markaðsaðilum. Í gær lækkaði álagið um sjö punkta.

Sérfræðingar segja samdráttinn í dag, sem varð til þess að álagið fór undir 60 punkta í fyrsta skipti síðan umrót á íslenskum fjármálamarkaði stuðlaði að tímabundnu yfirskoti, merki um endurvakið traust skuldabréfafjárfesta á íslensku bönkunum, sérstaklega Kaupþingi banka.

Álag á skuldatryggingar Landsbanka Íslands lækkaði um sex punkta í 46 punkta og Glitnir lækkaði um fimm punkta í 36 punkta.

Íslensku bankarnir hafa lokið endurfjármögnun fyrir næsta ár, en sérfræðingar benda á að fjármögnunarkostnaðurinn hafi verið hár og ekki endurspegla styrk þeirra né lánshæfismat. Kaupþing og Glitnir eru með lánshæfismatið A1 hjá Moody's Investors Service og Landsbankinn er með lánshæfiseinkunina A2 hjá sama matsfyrirtæki.