Kristín Edwald er formaður nefndar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði í dag og hefur það hlutverk að undirbúa millidómsstig.

„Það er þrennt sem hefur verið gagnrýnt og það er það sem þarf að bæta úr,“ segir Kristín í samtali við VB.is. Það fyrsta sé að hingað til hafi alvarlega verið farið á mis við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Annað, sem varði einkamál og þurfi að skoða, sé seta sérfróðra dómara á efra dómsstigi. Sérfróðir meðdómendur hafa tekið sæti í Héraðsdómi hér á landi en ekki í Hæstarétti. Í skýrslu sem unnin var um miillidómsstig fyrir innanríkisráðuneytið fyrir tveimur árum segir að þegar sérfræðidómari taki sæti á fyrsta dómsstigi en ekki á efra dómsstigi vegna ágreinings um sérfræðilegt atriði megi draga það í efa að málsmeðferðin á millidómsstiginu sé fallin til þess að ná fram réttari niðurstöðu um hið umdeilda sérfræðilega atriði sem tekist er á um.

„Síðast en ekki síst er það vinnuálagið á Hæstarétt og það að hann skuli starfa deildarskiptur,“ segir Kristín. Það sé eðlilegt að Hæstiréttur starfi í einni deild. Eins og staðan er í dag starfa tólf dómarar við Hæstarétt. Í sumum málum eru einungis þrír dómarar. Ákveðnir þrír dómarar geta dæmt í einu máli en aðrir þrír í öðru sambærilegu máli. Með þessu móti getur niðurstaða í tveimur ólíkum dómsmálum orðið ólík eftir því hvaða dómarar skipa dóminn.

Kristín segir að þau fjögur fagfélög lögfræðinga sem starfi á Íslandi hafi haldið fund um millidómsstig haustið 2010. Yfir hundrað manns hafi mætt á fundinn. „Ég hef aldrei upplifað eins fjölmennan fund og það voru allir sammála um að það þyrfti að koma millidómstigi á,“ segir Kristín. Kristín segist því hafa fagnað því að það hafi komið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í vor að koma ætti á millidómsstigi

Með Kristínu í nefndinni starfa Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.