Seðlabankinn greiddi 210 krónur á evru í síðasta gjaldeyrisútboði bankans í lok aprílmánaðar. Þetta svarar til 40% álags á opinbert viðmiðunargengi krónunnar. Hagfræðideild Landsbankans bendir á það í Hagsjá sinni í dag að álagið hafi lækkað upp á síðkastið og bendir á að til samanburðar hafi álagið verið rúm 55% í gjaldeyrisútboði bankans í júní í fyrra.

Útboðið var það þriðja sem Seðlabankinn hélt á árinu. Þar skiptu um 29 milljónir evra um hendur fyrir 6 milljarða króna. Í fyrri hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn bauðst til að kaupa evrur gegn greiðslu í krónum til fjárfestingar hér á landi. Í seinni hluta útboðsins bauðst Seðlabankinn til að kaupa fastar aflandskrónur gegn greiðslu í evrum. Tilboð bárust upp á 9,3 milljarða króna. Bankinn tók tilboðum upp á sex milljarða á genginu 210 eins og áður sagði. Hagfræðideildin segir þetta svipaða þátttöku og í seinustu útboðum.