Aðstoðarmaður borgarstjóra þvertekur fyrir að Reykjavíkurborg geti gefið Hörpu afslátt af fasteignagjöldum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í síðustu viku gaf Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, eignarhaldsfélags Hörpu, til kynna að slíkt væri óskandi og hefði lykiláhrif á rekstur hússins.

„Álagning fasteignagjalda er ekki geðþóttaákvörðun.“ Er haft eftir Birni Blöndal, aðstoðarmanni borgarstjóra, í Fréttablaðinu. Þar segir hann að eitt skuli ganga yfir alla. Harpa sé mjög stórt hús og þurfi að greiða fasteignagjöld ís amræmi við það. Hann bendir jafnframt á að fulltrúar borgarinnar hafi á öllum stigum málsins bent á að afar ólíklegt væri að áætlanir Hörpu um fasteignagjöld stæðust.