Aðgangur að álagningarseðlum vegna álagningar opinberra gjalda á einstaklinga árið 2012, vegna ársins 2011, opnaði í gærkvöldi.

Ríkisskattstjóri hafði áður boðað að það yrði gert í dag en því var flýtt til að létta á vefsvæði ríkisskattstjóra í dag.

Kærufrestur rennur út á miðnætti 24. ágúst. Þeir sem hafa athugasemdir við álagninguna geta því kært hana fyrir þann tíma. Ríkisskattstjóri skal úrskurða um kærur innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests.

Einnig geta þeir sem ekki hafa skilað framtali sent það inn fyrir þann tíma. Ef framtali er ekki skilað fyrir lok kærufrests þarf að óska eftir endurupptöku á framatalinu. Þá getur tekið marga mánuði að fá rétta álagningu.

Hægt er að sækja álagningarseðilinn á skattur.is .