*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 6. maí 2020 19:01

Álagningarskrár ekki aðgengilegar í ár?

Þingnefnd leggur til ýmsar breytingar á aðgerðaráætlun tvö, þar á meðal undanþágu frá dráttarvöxtum skattgreiðslna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ekki verður hægt að skoða álagningarskrár Skattsins í ár samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til við aðgerðaráætlun stjórnvalda. Að óbreyttu mun það þýða að almenningur mun ekki geta mætt á skrifstofur Skattsins til að fletta í skránum. Einnig mun þetta þýða að tekjublað Frjálsrar verslunar, sem og tekjublöð annarra fjölmiðla munu ekki koma út á árinu.

Nefndin leggur ýmsar breytingar til við frumvarp til laga um frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru sem nú liggur fyrir nefndinni.

Meðal annarra breytinga sem nefndin leggur fram ná mefna:

  • Undanþága frá dráttarvöxtum skattgreiðslna fyrirtækja
  • Hækkun hámarks kostnaðar og hlutfalls frádráttar minni og meðalstórra fyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Þannig hækki hámarksfjárhæðin í 1,1 milljarð króna sem nota má til frádráttar þar af heimild til að draga frá allt að 200 milljónir vegna aðkeyptrar þjónustu.  
  • Hækkun skattaafsláttar til einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum úr 50 í 75% af fjárhæð fjárfestingar og hækkun fjárhæðarmarka úr 10 í 15 milljónir.
  • Breytingar á heimild lífeyrissjóða til að eiga hlutdeildarskírteini og hluti í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, og færi heimild lífeyrissjóðanna úr því að eiga 20% í 35%, verði framlengd til 1. janúar 2025 í stað þriggja ára og loks leggur nefndin til breytingar á skilgreiningu á því í hvers konar fyrirtækjum sjóðirnir megi fjárfesta.
  • Harðari skilyrði til einkarekinna fjölmiðla um að leggja fram gögn um greiðslu opinberra gjalda og skatta auk meðalfjölda stöðugilda, fjölda verktaka og heildarfjárhæð greiðslna til starfsmanna og verktaka, til að njóta sérstaks rekstrarstuðnings sem verður úthlutað eigi síður en 1. september 2020.
  • Fjölgun starfslauna listamanna úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.200 vegna 250 milljóna viðbótarframlags í launasjóð listamanna.
  • Útvíkkun eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega frá einungis þeim sem hlutu desemberuppbót á árinu 2019 til einnig þeirra sem eiga rétt á orlofsuppbót á þessu ári.

Frumvarpið er hluti af aðgerðaráætlun 2 vegna þeirra efnahagslegu áfalla sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér, og er þeim ætlað að aðstoða og vernda fyrirtæki jafnt sem einstaklinga og veita atvinnulífinu viðspyrnu þegar rofar til.