Að mati Fjármálaeftirlitsins voru tímabundnar álagsgreiðslur sem Landsbankinn greiddi 76 starfsmönnum óheimilar og stóðust ekki reglur um kaupaukagreiðslur. Landsbankanum verður þó ekki gerð refsing í málinu. Hvorki bankastjóri né framkvæmdastjórar bankans fengu umræddar álagsgreiðslur. Á vef Landsbankans kemur fram að bankinn tilkynnti sjálfur málið inn.

Málið snýr að samtals 85 milljóna greiðslum sem inntar voru af hendi til starfsmanna á þriggja ára tímabili frá 2014-2016. Starfskjör fjármálafyrirtækja geta aðeins verið af tveimur gerðum, annað hvort föst laun eða kaupaukagreiðsla. Þar sem nákvæm upphæð greiðslnanna lá ekki fyrir fyrir fram og þær ekki bundnar í ráðningarsamninga töldust þær til kaupaukagreiðslna án þss að fyrir lægi kaupaukakerfi um þær. Því taldist bankinn hafa brotið gegn reglum um kaupaukakerfi.

Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins segir að við mat á því hvort beita skyldi viðurlögum í málinu hafi m.a. verið horft til þess að Landsbankinn hafði gert líklegt að aukagreiðslurnar hefðu verið inntar af hendi vegna tímabundins álags í starfi. „Þá voru greiðslurnar óverulegar sem hluti af heildarlaunakostnaði bankans á þeim árum sem voru til skoðunar. Ennfremur sýndi bankinn samstarfsvilja og hafði, áður en niðurstaða málsins lá fyrir, horfið frá umræddu fyrirkomulagi við greiðslu álagsgreiðslna og tekið upp vinnureglur sem miða að því að tryggja samræmt verklag og betri skjölun með samþykki starfskjaranefndar og aðkomu innri endurskoðanda. Með hliðsjón af framangreindu var það niðurstaða Fjármálaeftirlitsins að ekki væri ástæða til að beita viðurlögum vegna brotsins, auk þess sem það var mat stofnunarinnar að bankinn hefði þegar gripið til fullnægjandi úrbóta.“