Evrópska bankaeftirlitsstofnunin gaf út í gær að 24 evrópskir bankar uppfylltu ekki öll þau skilyrði sem nauðsynleg eru til þess að fá að starfa áfram. Fá bankarnir níu mánuði til þess að laga til í starfsemi sinni, en annars eiga þeir á hættu að þurfa að loka. Samtals voru 123 bankar skoðaðir þar sem athugað var hvort þeir gætu þolað annað efnahagshrun.

Hlutabréfamarkaðurinn í Evrópu hefur brugðist við tíðindunum af álagsprófinu nú í morgun með talsverðum hækkunum og lækkunum á gengi hlutabréfa.

Hlutabréf í ítalska bankanum Monte dei Paschi, sem gekk verst í prófinu, féllu um 15% við opnun markaða í morgun. Hlutabréf Lloyds bankans féllu jafnframt um 2,5%, en bankinn náði prófinu með naumindum.

Hlutabréf flestra banka á Evrópumarkaði hækkuðu hins vegar. Þannig hækkuðu bréf í austurríska bankanum Erste Bank og þýska bankanum Commerzbank um 5% við opnun markaða. Gengi bréfanna í síðarnefnda bankanum datt þó aftur niður nokkru seinna og stendur nú 2,5% hækkun.