Michael Barnier, sem stýrir viðskiptanefnd  Evrópusambandsins, segir að álagspróf sem lögð verða fyrir evrópska banka verði erfiðari og ítarlegri en þau sem fóru fram á síðasta ári. Í næstu prófum verður áhætta vegna skuldastöðu ríkisins og lausafjárstöðu könnuð sérstaklega.

Þetta sagði Barnier í samtali við blaðamenn í Brussel í dag en fundur fjármálaráðherra ESB-ríkja stendur nú yfir. Á vef Bloomberg er haft eftir Barnier að einnig sé nauðsynlegt að gerð verði áætlun um hvernig skal breðgast við ef bankastofnun stenst ekki álagspróf.

Erfiðari álagsprófum er ætlað að auka trúverðugleika evrópska bankakerfisins en álagsprófin í fyrra voru harðlega gagnrýnd fyrir að vera ekki nógu ítarleg. Líklegt er að álagspróf verið gerð strax í byrjun febrúar.