Bandaríska flugfélagið Alaska Airlines hefur gengið frá pöntun á 50 Boeing 737 flugvélum að andvirði fimm milljarða Bandaríkjadala.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal en þetta er stærsta pöntun félagsins frá því að það var stofnað árið 1932.

Vélarnar er sem fyrr segir allar af gerðinni Boeing 737. Hér er um að ræða 37 Boeing 737Max vélar, 13 Boeing 737-900ER. Fyrir átti félagið 25 737-900ER vélar pantaðar.

Flugfloti Alaska Airlines samanstendur í dag af 120 Boeing 737 vélum af ýmsum gerðum, flestar af gerðinni 737-800.