Albanía er örugglega ekki efst á blaði fjárfesta um þessar mundir, enda landið tiltölulega vanþróað. Þar á sér þó stað mikil uppbygging sem getur falið í sér veruleg tækifæri.

Albanía, eitt fátækasta ríki Evrópu, reynir nú að stíga inn í nútímann. Albanir hafa sóst eftir því að fá útlendinga til að fjárfesta í landinu, en með takmörkuðum árangri vegna vantrausts manna á landinu og mikils skrifræðis að mati Forbes. Þó er hafið mikið uppbyggingaferli í Albaníu með aðstoð þróunarbanka Evrópu, fjölmargra fjármálastofnana og Alþjóðabankans. Ekki var vanþörf á þar sem nær allir innviðir þjóðfélagsins voru í rúst.

Meirihluti Albana erlendis

Í Albaníu búa nær 3,6 milljónir manna samkvæmt nýjustu tölum. Talið er að um 8 milljónir manna af albönskum uppruna búi erlendis. Segja má að landið sé mjög vanþróað á vestrænan mælikvarða, þrátt fyrir að það sé staðsett miðsvæðis í Evrópu og eigi merkilega menningarsögu að baki. Ríkið vék frá kommúnískri einræðisstjórn Enver Hoxa í byrjun tíunda áratugarins og fór að feta sig inn á slóð lýðræðis. Þurftu ný yfirvöld þá að takast á við mikla spillingu, skipulagða glæpastarfsemi, innviði þjóðfélagsins sem voru meira og minna í rúst, mikið atvinnuleysi og fátækt. Nú er ríkið þó sagt vera á réttri leið þó margt sé óunnið og búi nú við talsverðan hagvöxt. Talið er að nýr vegur sem verið er að gera í gegnum landið frá ferðannaborginni Dubrovnik í Króatíu norðri, í gegnum Svartfjallaland og til Saranda í sunnanverðri Albaníu geti m.a. skipt sköpum í uppbyggingunni.

Vinir Bandaríkjamanna

Albanía hefur verið þægur bandamaður Bandaríkjamanna í Íraksstríðinu og ljáði Nato aðstöðu í landinu fyrir sprengjuflugvélar í stríðinu sem geisaði um Kosovo hérað í Króatíu. Ganga sumir reyndar svo langt að segja að Albanía, þrátt fyrir alla sína fátækt, sé amerískasta land Evrópu. Forbes greindi m.a. frá því að við innrásina í Írak hafi gamall Albani m.a. haft á orði hvort Albanía gæti ekki orðið 51. ríki Bandaríkjanna.

Albanir í útlöndum mikilvægir

Tekjur frá Albönum sem vinna erlendis eru að mati Global Property Guide (GPG) umtalsverður hluti af tekjuöflun ríkisins. Þær nema um 600 til 800 milljónum dollara á ári. Þá hafa Albanar talsverðar tekjur af ferðamönnum þó það sé ekki í neinni líkingu við það sem þekkist í nágrannaríkjum Albaníu. Um 70% þjóðarinnar eru múslímar, en 20% orthodox kristnir og 10% kristnir kaþólikkar. Opinberar tölur í Albaníu sögðu 13% atvinnuleysi á síðasta ári. Hins vegar er raunverulegt atvinnuleysi talið vera mun meira eða allt að 30%. Þrátt fyrir atvinnuleysi og fátæktina sem á trúlega orsakir í afturhaldsömu stjórnarfari liðinna áratuga, þá er landið ríkt af jarðargæðum. Þar er m.a. að finna bauxite (grunnefni álframleiðslu), króm, kopar, járn, nikkel, salt, timbur, kol, olíu, gas og vatnsorku auk landbúnaðargæða.

Reglur hamla útlendingum ekki að kaupa fasteignir í Albaníu, en banna útlendingum að sama skapi að eignast þar ræktarland. Aftur á móti geta útlendingar leigt ræktarland til allt að 99 ára. Útlendingar geta líka eignast atvinnuhúsnæði í Albaníu en verðið má þá aldrei vera lægra en þrefalt verðmæti þess lands sem það stendur á. Landið er mjög fjöllótt og ekki stórt, eða 28.748 ferkílómetrar sem er tæpur þriðjungur af stærð Íslands. Þar af þekja stöðuvötn 1.350 ferkílómetra. Ræktanlegt land er um 20% af stærð landsins. Höfuðborgin Tirana er um miðbik landsins, en þar búa um 607 þúsund manns. Albanía á landamæri að Grikklandi, Macedoníu, Kosovo og Svartfjallalandi.