Albert Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri FL Investment, dótturfyrirtækis FL Group. Albert sem hefur störf 1. október næstkomandi mun hafa umsjón með rekstri FL Investment, en megintilgangur félagsins er að hámarka virði hluthafa með fjárfestingum í fyrirtækjum og eignum jafnt á Íslandi sem erlendis.

Undanfarin 4 ár hefur Albert sinnt starfi forstöðumanns eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins. Eignir LSR hafa á þessu tímabili aukist úr tæpum 90 milljörðum króna í 220 milljarða króna og ávöxtun verið mjög góð. Hannes Smárason, starfandi stjórnarformaður FL GROUP segir Albert mikilvæga viðbót í stjórnendahóp FL Group nú þegar stöðugt aukin áhersla er lögð á fjárfestingastarfsemi félagsins. "Á þessu mikla vaxtartímabili LSR leiddi Albert fjárfestingar LSR á innlendum og erlendum mörkuðum með góðum árangri. Albert hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði undanfarna tvo áratugi hjá flestum helstu fjármálafyrirtækjum landsins við verðbréfamiðlun, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og kaupleigu og við væntum mikils af störfum hans fyrir FL Investment", segir Hannes.

Albert er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 1986 og lauk löggildingu í verðbréfamiðlun árið 1998. Albert er kvæntur Elínu Þórðardóttur rekstrarhagfræðingi og eiga þau tvö börn en fyrir á Albert eina dóttur.