Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra afhenti Alcan á Íslandi hf. Íslensku gæðaverðlaunin 2005 við hátíðlega athöfn á Grand Hótel í dag. Rannveig Rist forstjóri Alcan veitti verðlaununum viðtöku.

Alcan á Íslandi rekur álver í Straumsvík þar sem framleidd eru um 180.000 tonn af áli. Framleiðslan nú er 20% meiri en verskmiðjan er hönnnuð til að framleiða, en sá árangur skýrist af mikilli tækni- og verkþekkingu sem orðið hefur til innan fyrirtækisins auk markvissrar stjórnunar. Fyrirtækið hefur vottað gæðakerfi (ISO 9001), umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001) og öryggisstjórnunarkerfi (OHSAS 18001) og hefur verið leiðandi á ýmsum sviðum.

Starfsmenn og stjórnendur Alcan á Íslandi hafa undanfarin ár unnið markvisst að því að bæta rekstur fyrirtækisins. Þetta á sérstaklega við um framleiðslu- öryggis- og umhverfismál fyrirtækisins. Alcan á Íslandi getur státað að því að vera eina íslenska fyrirtækið sem er með vottað stjórnkerfi sem uppfyllir gæða-, öryggis- og umhverfisstaðla. Fyrirtækið er hluti af mjög öflugri samsteypu þar sem miklar kröfur eru gerðar til einstakra dótturfélaga. Þetta gerir það að verkum að innra og ytra eftirlit Alcan á Íslandi er mjög virkt og heldur mönnum stöðugt á tánum.

Alcan á Íslandi hefur nýtt sér vel þau tækifæri sem felast í því að vera hluti af stærri heild. Til að mynda hefur verið unnið mjög markvisst í því að bæta innkaupaferlið, fjármálastýringu, starfsþróunarmál og umbótastarf fyrirtækisins með aðferðum sem Alcan samsteypan er að innleiða þvert á allar einingar. Fyrirtækið hefur einnig tileinkað sér ýmsar aðferðir á sviði fræðslu-, öryggis- og umhverfismála sem hafa vakið sérstaka athygli innan sem utan Alcan.

Allt þetta hefur leitt til þess að Alcan á Íslandi er að ná frábærum árangri bæði hvað varðar framleiðslugetu og almennar rekstrarniðurstöður. Það er því óhætt að segja að þær aðferðir sem Alcan á Íslandi er að beita eru að skila mælanlegum árangri á heimsmælikvarða.