Ólafur Teitur Guðnason, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Alcan á Íslandi, segir fyrirtækið hafa greitt 1,4 milljarða króna í tekjuskatt árið 2007 og 230 milljónir í fasteignagjöld. Fyrirtækið hafi einnig átt viðskipti við 800 innlend fyrirtæki fyrir 5,4 milljarða króna.

Í grein sem birt er á vef Alcan svarar Ólafur fullyrðingum Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra, um að álver á Íslandi hafi lítinn efnahagslegan ávinning.

Ólafur Teitur bendir einnig á þá miklu verkfræðiþekkingu sem stóriðjan hafi lagt grundvöll að. Nýsköpunarfyrirtæki séu sprottin úr jarðvegi álveranna og íslenskur hátæknibúnaður sé seldur í álver um allan heim. Þá sé ætlaður ávinningur af því að landsmenn hafi ekki þurft að byggja upp raforkukerfið í litlum og óhagkvæmum skrefum. Stóriðja hafi einnig greitt hærri laun en almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði og feli þess vegna í sér „raunverulegan ávinning.“