Orðrómar hafa verið um sölu kanadíska álframleiðandans Alcan, en framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, Richard Evans ítrekar að fyrirtækið sé ekki til sölu, segir í frétt National Post.

Að minnsta kosti tvö fyrirtæki hafa gefið til kynna að yfirtaka Alcan væri möguleg.

Starfsmaður kanadíska námufyrirtækisins TD Newscrest, Greg Barnes, sagði á miðvikudag að yfirtaka á Alcan væri möguleg, þar sem erlend námufyrirtæki væru að hola kanadíska námumarkaðinn að innan, segir í fréttinni.

Starfsmaður fjármálafyrirtækisins Merrill Lynch, Vicky Binns, sagði að enska námufyrirtækið Rio Tinto PLC gæti boðið 30% meira en núverandi gengi hlutabréfa í Alcan, segir í fréttinni.

Evans tekur hinsvegar fram að stefnt sé að auknum vexti fyrirtækisins, en ekki sölu þess og bendir á fyrirhugaða stækkun fyrirtækisins því til sönnunar, segir í fréttinni.

Alcan hefur áður tilkynnt að fyrirtækið hyggist leggja um 280 milljarða króna í stækkun fyrirtækisins.

Stækkun álversins í Straumsvík er hluti af þeirri upphæð, en hún mun kosta um 80 milljarða króna, Alcan á þó eftir að taka ákvörðun um hvort verði af stækkuninni, segir í fréttinni.