Kanadíska álfyrirtækið Alcan íhugar nú meðal annars að gera gagntilboð í samkeppnisaðilann Alcoa og koma þannig í veg fyrir að óvinveitt yfirtökuboð Alcoa, sem hljóðar upp á um 1.750 milljarða króna, nái fram að ganga, segir í frétt Dow Jones.

Forstöðumaður framkvæmdasviðs Alcan, Christel Bories, sagði að gagntilboð væri einn þeirra möguleika sem fyrirtækið væri nú að skoða, en tók jafnframt fram að fjölmargir möguleikar væru nú í stöðunni. Meðal þeirra möguleika munu vera að ganga til liðs við önnur fyrirtæki í samruna og hafa BHP Billiton, Rio Tinto og Norsk Hydro verið nefnd í því samhengi.

Hún sagði þá að tilboð Alcoa væri ekki hagstætt og að málið snúist ekki einungis um verð. Hún segir tilboðinu fylgja íþyngjandi skilyrði og á framkvæmd samrunans væru margir fyrirvarar, jafnvel þótt viðurkennt sé að samlegðaráhrif séu til staðar. Hún nefnir í því samhengi að skörun sé í starfsemi fyrirtækjanna og að vandamál kunni að koma upp hjá samkeppnisyfirvöldum.

Samruni þessara tveggja félaga, sem bæði eru með starfsemi hér á Íslandi, myndi gera það að verkum að til yrði langsamlega stærsta álfyrirtæki heimsins: Ársvelta sameinaðs fyrirtækis myndi vera um 54 milljarðar dollara, framleiðslugetan væri um 30 milljónir tonna af áli og starfsmenn yrðu 188 þúsund talsins í 67 löndum.

Alcoa lagði fram yfirtökuboð í Alcan þann 7. maí síðastliðinn sem hljóðar upp á 58,6 Bandaríkjadali og 0,4108 hlut í Alcoa fyrir hvern hlut í Alcan og metur það fyrirtækið nú á um 1.750 milljarða króna. Tilboðið rennur út 10. júlí.

Framkvæmdarstjóri Alcoa, Alain Belda, hefur gefið til kynna að fyrirtækið hafi lítinn vilja til að hækka yfirtökuboðið. "Í augnablikinu tel ég að tilboðið sé sanngjarnt og væri mér meinilla við að það yrði hækkað á þessu stigi máls," segir Belda. Hann segir að hlutabréfaverð Alcan sé of hátt núna og muni leiðréttast á næstunni. Því segist hann muni láta málið spilast út og hann sé nokkuð sannfærður um að yfirtakan takist. Hann segir einnig að hækkun hlutabréfaverðs sem verður iðulega í kjölfar yfirtökutilboðs, hafi þegar verið innifalin í gengi Alacan þegar tilboðið var lagt fram, þar sem orðrómur um yfirtöku á bæði Alcan og Alcoa hafi verið í gangi mörgum mánuðum áður.