Bresk-ástralska námufyrirtækið Rio Tinto gerði vinveitt yfirtökutilboð í kanadíska álfélagið Alcan í gær sem hljóðaði upp á 38,1 milljarð Bandaríkjadala, eða 101 dal fyrir hvern hlut, sem er 32,8% hærra verð heldur en 27,96 milljarða dala fjandsamlegt yfirtökutilboð Alcoa, sem lagt var fram 7. maí síðastliðinn. Stjórn Alcan hefur einróma mælt með því að hluthafar félagsins samþykki tilboð Rio Tinto, en gert er ráð fyrir því að það verði fjármagnað að öllum hluta með peningum, að því er fram kemur í frétt Financial Times um málið. Forsvarsmenn beggja félaga segjast vera þess fullvissir að sameining fyrirtækjanna muni verða að veruleika, enda þótt samningurinn þarfnist samþykkis samkeppnisyfirvalda víðsvegar um heim.

Sameinað félag, sem mun heita Rio Tinto Alcan, yrði leiðandi fyrirtæki á heimsvísu í báxítuppgreftri, ál- og súrálframleiðslu. Dick Evans, núverandi framkvæmdastjóri Alcan, verður yfirmaður sameinaðs fyrirtækis og gert er ráð fyrir að höfuðstöðvar þess verði staðsettar í Montreal í Kanada.

Yrði með ráðandi stöðu í áliðnaði
Tilboð Rio Tinto, sem er annað stærsta námufyrirtæki heims, er lagt fram á sama tíma og eftirspurn eftir áli í heiminum fer ört vaxandi og umfram aðra málma á borð við kopar og járngrýti. Á síðustu tveimur árum hefur álverð á heimsmarkaði hækkað um 55%. Því er spáð að eftirspurn eftir áli muni aukast árlega um 6% á næstu fjórum árum.

Rio Tinto Alcan hefði ráðandi stöðu í alþjóðlegum áliðnaði. Rio Tinto starfrækir málmbræðsluverksmiðjur í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Bretlandi, auk þess að eiga báxítnámur og súrálhreinsunarstöðvar á Sardiníu og í Ástralíu. Sérfræðingar segja að einhver skörun muni verða á starfsemi fyrirtækjanna í Norður-Ástralíu, en búist er við því að Rio Tinto skeri niður í rekstri sínum þar til að ná markmiði sínu um heildarsparnað upp á 600 milljónir dala með samrunanum.