*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 3. nóvember 2004 13:38

Alcan skoðar réttarstöðu sína gagnvart olíufélögunum

"borðleggjandi að á okkur var brotið"

Ritstjórn

"Við erum að skoða okkar réttarstöðu, en samkvæmt skýrslunni virðist borðliggjandi að á okkur hafi verið brotið - niðurstaða sem ekki kemur okkur á óvart," sagði Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Alcan á Íslandi þegar hann var spurður um það hvort félagið hyggðist stefna olíufélögunum vegna meðferða þeirra á útboðum Ísal í gegnum tíðina.

Að sögn Hrannars eiga olíufélögin eftir að áfrýja málinu og taldi hann að allt eins mætti búast við að málið fari fyrir dómstóla, þannig að það mun
væntanlega þvælast áfram í kerfinu í 1 til 2 ár til viðbótar. "Við fylgjumst
að sjálfsögðu vandlega með og erum að skoða kostina í samráði við okkar
lögmann."


Markaðsskipting vegna sölu til ÍSAL

Í skýrslu Samkeppnisstofnunar kemur fram að samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966. Íslenska álfélagið hf. (ÍSAL) var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Á fundi olíufélaganna sem haldinn var þann 8. mars 1967 var samþykkt að félögin myndu bjóða tiltekið verð í kaup ÍSAL á eldsneyti. Jafnframt var ákveðið að það félag sem fengi viðskiptin skyldi skipta sölunni jafnt með hinum félögunum. Einnig var ákveðið að Olís fengi viðskipti við tiltekið fyrirtæki sem vann að byggingu verksmiðjunnar og í því samhengi ákveðið að Olís myndi bjóða lægst vegna útboðs fyrirtækisins.

Framleiðsla ÍSAL hófst árið 1969 og samdi fyrirtækið við Skeljung um kaup á
eldsneyti. Forstjórar olíufélaganna þriggja hittust á fundi 4. september
1969 og í fundargerð er að finna eftirfarandi bókun undir liðnum ?Gasolíu- og fuelolíuviðskipti við Álverksmiðjuna í Straumsvík?:
?Svo sem ákveðið var á fundi 8. mars 1967 milli olíufélaganna var
ákveðið að þau biðu í gasolíuviðskipti Álverksmiðjunnar gildandi
leiðsluverð á hverjum tíma. Í samræmi við þetta eru ákvæði í samningi þeim sem gerður var milli Álversmiðjunnar og Skeljungs h/f. um að það verð sem ÍSAL greiði fyrir gasolíu skuli vera gildandi útsöluverð á hverjum tíma frá leiðslu, nú kr. 3.22 pr. ltr. Samkomulag olíufélaganna náði einnig til þess að þessum viðskiptum skyldi skipt í þrjá hluta. Á fundinum í dag var ákveðið að Skeljungur skyldi creditera hin olíufélögin fyrir þeirra hluta af gasolíusölu til ÍSAL á leiðsluverði að frádregnum:
a) 40% af álagningu, v/kostnaðar við meðferð og sölu olíunnar
svo sem gert er við uppgjör á ríkisviðskiptum
b) 5 aura akstursgjald pr. ltr.

Í fundargerðinni eru einnig ummæli sem gefa til kynna að sama fyrirkomulag hafi ríkt varðandi sölu Skeljungs á fuelolíu (svartolíu) til ÍSAL. Gögn málsins sýna með skýrum hætti að olíufélögin hafa skipt með sér sölu
Skeljungs til ÍSAL frá 1969 til ágúst 2001. Í þessu fólst einnig að olíufélögin höfðu samráð um verð á því eldsneyti sem selt var ÍSAL.

Í yfirliti sem fannst hjá olíufélaginu um samstarf félagsins og Skeljungs frá því í september 1994, segir að samstarf ætti sér stað í Straumsvík og OHF fengi ?þriðjungssölu?.

Á fundi framkvæmdastjórnar Olíufélagsins í upphafi árs 1995 var óskað eftir því að útbúið yrði yfirlit yfir skiptisölu olíufélaganna í tilefni af því að forstjóri
Skeljungs hefði óskað eftir fundi um sameiginlega hagsmuni olíufélaganna. Á yfirlitinu kemur fram að Skeljungur væri umsjónaraðili með sölunni til ÍSAL og að heildarsala hefði verið rúmlega 5 milljónir lítra á ári sem skipst hefði jafnt á milli Skeljungs, OHF og Olís.

"Þeir vita að sjálfsögðu ekki um skiptisölu"

Árið 1996 ákváðu stjórnendur ÍSAL að endurnýja samning sinn vegna olíukaupa og óskuðu eftir viðræðum við Skeljung. Ljóst er að starfsmenn Skeljungs tilkynntu Olíufélaginu og Olís um þessar viðræður og leituðu eftir samþykki þeirra varðandi þau kjör sem ætti að bjóða ÍSAL, sbr. eftirfarandi tölvupóst starfsmanns Skeljungs til forstjóra Olís
og framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá OHF:
?Vísa í símtal okkar rétt áðan. Á morgun föstudag, verða viðræður við ÍSAL um endurnýjun viðskiptasamnings, út árið 1996. Í núverandi viðskiptasamningi er afsláttur á svartolíu kr. 60 pr. tonn, frá gamalli tíð, sem ekkert hefur breyst í nokkur undanfarin ár. Við þurfum að endurskoða þennan afslátt og líklega bæta eitthvað við grunninn til þess að þeim finnist þeir einhvers njóta með hliðsjón af magni (þeir vita að sjálfsögðu ekki um skiptisölu). Við búumst við að þurfa að ljúka málinu með a.m.k. 200 kr. afslætti pr. tonn, jafnvel hærra (þó hámark 300 að okkar mati). Athugasemdir óskast ef ekki er fallist á þessa málsmeðferð. Fundur með ÍSAL er kl. 10 í fyrramálið.?

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Olíufélaginu framsendi þennan tölvupóst til forstjóra félagsins með ummælum sem gefa til kynna að OHF hafi fallist á tillögur Skeljungs. Þessi gögn sýna að í söluskiptingunni til ÍSAL hafi einnig falist verðsamráð olíufélaganna að mati Samkeppnisstofnunar. Jafnframt sýna gögnin að Skeljungur hafi leynt ÍSAL þeirri staðreynd að félagið skipti sölunni með hinum olíufélögunum og hefði gert það frá upphafi viðskiptanna árið 1967. Undirritun samnings milli Skeljungs og ÍSAL fór fram 3. júní 1996.

Gögn málsins sýna að skiptisala olíufélaganna vegna samnings Skeljungs við ÍSAL hafi haldið áfram eftir undirritun hins nýja samnings. Í september 1996 varð Skeljungur var við það að Olís og OHF hefðu ekki borið kostnað vegna flutnings á olíu til ÍSAL. Þetta kemur fram í minnisblaði innra eftirlits Skeljungs til forstjóra félagsins:

"Afar vel varðveitt leyndarmál"

"Sala á eldsneyti (söluskipting) til ÍSAL hefur verið afar vel varðveitt
leyndarmál, af eðlilegum ástæðum. Fyrir nokkrum árum ... fann ég þó út
að svartolíusölu til ÍSAL var skipt sem þýddi að ýmsum kostnaði sem hafði
fallið á Skeljung hf. við afgreiðslu, rýrnun og geymslu svartolíunnar hefur
frá þeim tíma ýmist verið skipt í þrennt á félögin eða kostnaðurinn verið
innheimtur hjá ÍSAL. Um hefur verið að ræða stórar upphæðir, jafnvel
milljónir í heildina. Í vikunni hef ég verið að vasast í málum varðandi ÍSAL og Kísilgúrverksmiðjuna og þá komist að því að gasolíusala og bensínsala til
ÍSAL hefur frá upphafi verið skipt í þrennt. Mér er ókunnugt um að Olís
eða Esso hafið borið nokkurn kostnað af flutningum umrædds eldsneytis,
sem ávallt hefur verið flutt með bílum af Skeljungi. Þetta gildir a.m.k. um
seinni tíð, en mögulega hefur eitthvað verið krafið í upphafi, sbr.
samninga olíufélaganna þar að lútandi 1967?1969, sem til eru. ..."

Niðurstaða minnisblaðsins var sú að Skeljungur hefði árum saman haft
töluverðan kostnað af bensín- og gasolíusölu til ÍSAL og að þeim kostnaði hefði ekki verið skipt á milli olíufélaganna. Af þessu tilefni virðist nánari rannsókn hafa farið fram á þessu innan Skeljungs. Meðal annars var unnin greinargerð um framkvæmd á samningum við ÍSAL. Niðurstaða hennar var sú að hlutdeild Olís og OHF í sölunni til ÍSAL væri of hátt reiknuð að teknu tilliti til ýmissa þátta, t.d. var ekki reiknað með afsláttum af svartolíu, dísilolíu og bensíni sem veittir voru til ÍSAL. Greinargerðin staðfesti
einnig að Skeljungur greiddi allan kostnað vegna flutninga af bensíni og
dísilolíu. Í framhaldi af þessu ritaði Skeljungur bréf til Olís og OHF og krafðist þess að félögin greiddu sinn hluta af kostnaði vegna viðskiptanna við ÍSAL. Með bréfinu var einkum innheimtur kostnaður vegna tækjakaupa og afturvirks afsláttar sem fyrirtækið hafði gefið ÍSAL vegna ársins 1996. Á eintak Olís af bréfinu hefur starfsmaður Olís ritað þá athugasemd að staðfest væri að allri sölu á bensíni og olíu væri skipt. Mánuði síðar hóf Skeljungur undirbúning að því að krefja Olíufélagið og Olís um flutningskostnað vegna bensíns og dísilolíu til ÍSAL. Í þessum tilgangi voru gerð drög að nýju bréfi til hinna olíufélaganna og voru drögin lögð fyrir forstjóra Skeljungs til samþykkis.

Meðal þeirra gagna sem fundust hjá Skeljungi voru handskrifaðar
athugasemdir forstjóra Skeljungs við þetta bréf. Þær voru eftirfarandi:
?Mín vegna má senda þetta svona orðað. Vegna ákvæðis í samningi um
flutninga til kísilgúrverksmiðju þá bið ég þig um að sýna [ólæsilegt]
ákvæðið um að Esso geri það okkur að kostnaðarlausu.
Hvað með samningsákvæðið um aksturinn til Ísal??

Samkeppnisráð telur að þessar athugasemdir sýni skýrlega að Skeljungur hafi talið að upphaflegir samningar olíufélaganna um skiptingu á sölu til ÍSAL frá árunum 1967 og 1969 væru enn í gildi. Þann 10. mars 1997 sendi Skeljungur endanlegt bréf til Olís og Olíufélagsins og krafði félögin, með vísan til söluskiptingar, um greiðslu vegna kostnaðar Skeljungs við flutning á bensíni og gasolíu til ÍSAL. Rætt var um þetta bréf Skeljungs á fundi framkvæmdastjórnar Olís þann 11. mars 1997 og er eftirfarandi
bókað í fundargerð:

?Sérstök umræða fór fram vegna innheimtu Skeljungs vegna Straumsvíkur. Skoðaður verði óinnheimtur kostnaður hjá hinum olíufél. Sbr.
Landh.gæsla/SR o.fl. Rætt um að breyta framkvæmd á lánum eldsneytis á
milli félaga í beina útskuldun fremur en lán vegna utanumhalds og
mismunandi verðs við lán og skil.?