Alcan á Íslandi (Álverið í Straumsvík) greiddi 1,4 milljarða króna í tekjuskatt árið 2007 auk 230 milljóna króna í fasteignagjöld.

Þá keypti félagið vörur og þjónustu af rúmlega 800 fyrirtækjum á liðnu ári fyrir um 5,4 milljarða króna.

Þetta kemur fram í grein Ólafs Teits Guðnasonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Alcan á Íslandi sem birt er á vef fyrirtækisins í dag undir heitinu; Einskis verðir milljarðar?

Tilefni greinarinnar eru nýleg skrif Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra (sem í gær var skipaður ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu tímabundið) þar sem hann fjalla um efnahagsleg áhrif álvera á Íslandi.

Í grein sinni sagði Indriði að efnahagslegur ávinningur landsmanna af álversstarfsemi sé lítill.

Ólafur Teitur segir að tvennt skekki einkum niðurstöðu Indriða; annars vegar vanmeti hann stórlega ávinninginn og hins vegar geri hann of lítið úr þýðingu þess ávinnings sem hann telur að sé þrátt fyrir allt fyrir hendi.

Þá minnir Ólafur Teitur á að Alcan á Íslandi greiði sama tekjuskatt til ríkisins og önnur fyrirtæki í landinu og njóti engra sérkjara í því sambandi.

Hann segir að fyrrnefnd fjárhæð sé um 3% af öllum tekjusköttum ríkisins af lögaðilum þetta ár. Hún sé hærri en allur tekjuskattur af fiskveiðum, sem var rúmur milljarður.

„Hærri fjárhæð kom sem sagt frá þessu eina fyrirtæki,“ segir Ólafur Teitur í grein sinni.

„Hún er líka hærri en tekjuskattur allra fyrirtækja í hótel- og veitingahúsarekstri, hugbúnaðargerð og tengdri ráðgjöf, og lögfræðiþjónustu – samanlagt.“

Þá tekur Ólafur Teitur fram að öll verslun í landinu greiddi 4,8 milljarða í tekjuskatt, þannig að álverið í Straumsvík greiddi meira en fjórðung af tekjuskatti allra verslunarfyrirtækja á Íslandi.

„Hafa þau fyrirtæki kannski litla efnahagslega þýðingu?“ spyr Ólafur Teitur í grein sinni.

„ Vissulega veita þau fleira fólki atvinnu en álverið, en það felur væntanlega ekki í sér neinn „raunverulegan" ávinning fyrir landsmenn því störfin hefðu orðið til hvort sem er, svo notuð sé vinsæl röksemd.“

Keyptu vörur og þjónustu af rúmlega 800 fyrirtækjum á liðnu ári

Þá víkur Ólafur Teitur að þeim orðum Indriða þar sem hann fjallar um laun og hagnað innlendra aðila sem eiga viðskipti við álfyrirtækin.

Í grein sinni fullyrti Indriði að sú fjárhæð væri lág en viðurkenndi engu að síður að hann hefði ekki aflað sér upplýsinga um aðkeypta þjónustu innanlands og því var honum „ekki unnt að meta laun og hagnað þeirra sem þá þjónustu seldu", eins og segir í grein Indriða.

Ólafur Teitur segir að Álverið í Straumsvík hafi á liðnu ári keypt  vörur og þjónustu af rúmlega 800 innlendum aðilum fyrir 5,4 milljarða króna, fyrir utan orkukaup. Þetta skapi hundruð starfa.

„Til að setja þessi útgjöld í samhengi – og gefa um leið nokkra hugmynd um umfang þeirrar þjónustu sem álverið kaupir – má nefna að fyrir þessa fjárhæð mætti reka allt í senn Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann á Akureyri,“ segir Ólafur Teitur.

„Eða allt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, með ríflegum afgangi fyrir nokkur sýslumannsembætti.“

Sjá grein Ólafs Teits í heild sinni.