Fulltrúar Alcan og Orkuveitu Reykjavíkur skrifuðu í gær undir samning sem tryggir Alcan um 200 MW af raforku vegna fyrirhugaðrar stækkunar álversins í Straumsvík.

Samningurinn gerir ráð fyrir að orkan verði tilbúin til afhendingar um mitt ár 2010 og hún komi frá jarðvarmavirkjunum Orkuveitunnar á Hellisheiði. Samningstíminn er 25 ár, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Alcan, alcan.is.

Viðræður milli Alcan og Orkuveitunnar hafa staðið yfir frá því fyrirtækin undirrituðu á síðasta ári viljayfirlýsingu um samstarf. Með samningnum nú hefur Alcan tryggt sér um 40% þeirrar orku sem fyrirtækið þarf ef verksmiðjan í Straumsvík verður stækkuð en viðræður standa yfir við Landsvirkjun um þau 60% sem enn eru ótryggð.

Einnig standa yfir viðræður við Landsnet vegna flutnings á þeirri raforku en stefnt er að því að ljúka viðræðum við báða þessa aðila á síðari hluta ársins.

"Með undirritun orkusamningsins hefur Alcan færst einu skrefi nær ákvörðun í málinu og getur einbeitt sér að þeim þáttum sem enn er ólokið. Á grundvelli samningsins sem undirritaður var í dag getur Orkuveitan hafið rannsóknir sem nauðsynlegt er að gera á komandi sumri, þannig að umrædd orka geti verið til afhendingar á umsömdum tíma," segir í fréttinni.