Fyrirtækin Alcan á Íslandi, Össur, CCP,Stálskip og HB Grandi hlutu í dag viðurkenningu frá Creditinfo fyrir framúrskarandi rekstur. Alcan hlaut fyrstu verðlaun. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin en athöfnin fór fram á Grand hótel.

Verðlaunin eru veitt eftir ítarlega greiningu Creditinfo sem sýnir hvaða íslensku fyrirtæki fá bestu einkunn í styrk- og stöðugleikamati félagsins. Af rúmlega 32 þúsund fyrirtækjum sem skráð eru í hlutafélagaskrá reyndust 177 fyrirtæki uppfylla þau skilyrði sem Creditinfo setur til að fá viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki.

„Við valið voru síðustu þrír ársreikningar fyrirtækja lagðir til grundvallar og þurftu fyrirtækin meðal annars að sýna fram á jákvæðan rekstrarhagnað og ársniðurstöðu. Sömuleiðis máttu eignir aldrei vera undir 100 milljónum og eiginfjárhlutfall aldrei minna en 25%. Einnig þurftu fyrirtækin að vera í flokki 1-3 í CIP áhættumati Creditinfo,“ segir í tilkynningu frá Creditinfo.