Bandaríski álrisinn Alcoa hefur greint frá því að félagið hyggist draga saman framleiðslu sín um 350.000 tonn til viðbótar við það sem áður hafði verið ákveðið.

Gert er ráð fyrir að samdrátturinn hefjist samstundis.

Í síðasta mánuði greindi félagið frá því að það hyggðist draga saman framleiðsluna um 265.000 tonn í álverksmiðju sinni í Rockdale í Texas.

Með þessari nýjustu samdráttarviðbót er ljóst að samdráttur félagsins á þessu ári nemur um það bil 15% af heildarframleiðslu félagsins eða 615.000 tonnum.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að samdrátturinn nú er nauðsynlegur vegna minnkandi eftirspurnar eftir áli  og versnandi ástandi á mörkuðum. Í kjölfar minnkandi framleiðslu verður reynt að hagræða sem mest í rekstri félagsins.

Alcoa kannar nú kosti þess að byggja álver með 250.000 til 346.000 tonna framleiðslugetu á Bakka við Húsavík. Búið var að senda tillögu um matsáætlun til Skipulagsstofnunar.