Vegna frétta í fjölmiðlum í dag vill Alcoa á Íslandi taka fram að það er ekki rétt að búið sé að taka ákvörðun um að fresta álveri á Bakka um nokkur ár.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að hætt hefði verið við stækkun Álversins í Straumsvík auk þess sem tekin hefði verið ákvörðun um að fresta álveri á Bakka.

Í tilkynningu frá Alcoa kemur fram að rannsóknarborunum á Þeistareykjum var frestað um mánaðamótin október/nóvember um eitt ár, þar sem Alcoa taldi óvarlegt að ráðast í miklar fjárskuldbindingar á þessum erfiðu tímum í efnahagsmálum heimsins og vegna þess að ekki náðist samkomulag um kostnaðarskiptingu milli Landsvirkjunar og Alcoa.

Þá kemur fram að áfram verði unnið eftir viljayfirlýsingu Alcoa, Norðurþings og ríkisstjórnarinnar og Alcoa vinnur áfram að mati á umhverfisáhrifum álvers og að sameiginlegu mati framkvæmda sem tengjast fyrirhuguðu álveri á Bakka.