Alcoa Fjarðaál hefur undirritað samning við Skýrr um uppsetningu á sérhæfðu hugbúnaðarumhverfi fyrir þróun og prófun nýrra lausna í Oracle-launaþjónustu og vakta- og viðverukerfinu VinnuStund frá Skýrr. Innifalið í samningnum er innleiðing og aðlögun búnaðarins fyrir þarfir Alcoa Fjarðaáls, ásamt hýsingu, rekstri og tengdri þjónustu segir í tilkynningu.

Samningur þessi er viðbót við samning fyrirtækjanna, sem gerður var árið 2007 í kjölfar útboðs á vegum Capacent. Sá samningur var til fimm ára og kvað á um innleiðingu Skýrr fyrir Alcoa Fjarðaál á launakerfi Oracle E-Business Suite, Oracle Discoverer-greiningartólum og vakta- og viðverukerfinu VinnuStund.

Oracle E-Business Suite er helsta upplýsingakerfi Alcoa á heimsvísu. Oracle-launakerfið og VinnuStund eru þannig tengd mannauðskerfi Alcoa, sem hýst er og rekið í Ungverjalandi fyrir starfsemi fyrirtækisins í Evrópu.

Alcoa Fjarðaál hefur nú um tveggja ára skeið útvistað launaþjónustu sinni til Skýrr, sem rekur allan hug- og vélbúnað og sér um skráningu og viðhald launatengdra upplýsinga um starfsfólk. Jafnframt sér Skýrr um prentun fyrir Alcoa Fjarðaál á launaseðlum, launamiðum og öðrum útsendu efni er tengist launaþjónustu fyrirtækisins segir í frétt.

Víðtæk útvistun

Samningur Alcoa Fjarðaáls við Skýrr er í samræmi við þá stefnu að einbeita sér að kjarnastarfsemi – álframleiðslu – en láta öðrum fyrirtækjum eftir það sem þau kunna betur. Alcoa Fjarðaál hefur útvistað fjölmörgum starfsþáttum, svo sem hafnarstarfsemi, birgðahaldi, viðhaldsþjónustu og verkfræði- og tölvuþjónustu.