Árleg framleiðsla Alcoa Fjarðaál í Reyðafirði er um 346 þúsund tonn af áli til útflutnings, í formi hreins gæðaáls, álblanda og álvíra. Þetta kemur fram í nýútgefnu staðreyndaskjali Fjarðaáls, þar sem birtar eru helstu lykiltölu um starfsemina og samfélagslega áhrif hennar.

Þá kemur fram að heildartekjur af útflutningi áls frá Íslandi hafi verið um 220 milljarðar króna á síðasta ári, sem svarar til um 25% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Hlutur Fjarðaáls í heildarvöruútflutningum nam 17%. Ekkert annað fyrirtæki hér á landi flytur út meira vörumagn.

Fyrirtækið greiddi 4,3 milljaraða króna í laun og launatengd gjöld á árinu 2010 og námu meðallaun starfsmanna 6,9 milljónum króna á árinu að sögn Ruth Elfarsdóttur, framkvæmdarstjóra fjármála hjá Alcoa Fjarðaáli.

Álverið keypti vörur og þjónustu innanlands fyrir um 10,5 milljarð króna og 1,1 milljarður króna var greiddur í opinber gjöld til ríkisins og sveitafélagsins Fjarðabyggðar í formi fasteignagjalda, hafnargjalda, orkuskatts og fyrirframgreidds tekjuskatts samkvæmt samningi við ríkið.

Samkvæmt Guðnýju Björgu Hauksdóttur, framkvæmdarstjóra mannauðsmála hjá Fjarðaáli, starfa 480 manns hjá fyritækinu auk þess starfi 320 manns á álverssvæðinu á vegum ýmissa undirverktaka við störf nátengd álverinu.