Framkvæmdastjóri Alcoa, Alan Belda, gaf það í skyn í bréfi sem hann sendi Dick Evans, framkvæmdastjóra Alcan, í síðasta mánuði að bandaríski álrisinn væri reiðubúinn til þess að hækka fjandsamlegt yfirtökutilboð sitt í Alcan upp á 28,6 milljarða Bandaríkjadala sem var gert 7. maí síðastliðinn. Stjórn Alcan óskaði hins vegar eftir því við hluthafa sína að þeir myndu ekki samþykkja tilboðið á sínum tíma.

Í frétt bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal í gær er sagt frá þeim bréfaskiptum sem áttu sér stað á milli Belda og Evans í júnímánuði, en þau voru gerð opinber vegna tilkynningarskyldu bandaríska verðbréfaeftirlitsins (SEC). Þar kemur meðal annars fram að Belda hafi spurst fyrir um hvort það væri rétt sem fjölmiðlar hefðu greint frá, að Alcan væri að safna saman gögnum og upplýsingum sem þeir myndu veita þeim félögum aðgang að sem hefðu áhuga á að leggja fram tilboð í Alcan. Belda segir í bréfi sínu til Evans að aðgangur að slíkum upplýsingum myndi ákvarða það hvort Alcoa væri reiðubúið til þess hækka tilboð sitt í Alcan. Framkvæmdastjóri kanadíska álrisans sagði hins vegar í svari sínu til Belda að Alcoa yrði einungis veittur aðgangur ef það myndi samþykkja að skrifa undir samkomulag þar sem bæði álfyrirtækin lofuðu því að kaupa ekki bréf í hvor öðru í tiltekin tíma. Belda vildi ekki ganga að slíkum samningi nema tekið yrði tillit til þess að Alcoa hefði nú þegar lagt fram tilboð í Alcan.

Að mati sérfræðinga um álmarkaðinn er búist við því að Alcan muni taka stefnumarkandi ákvörðun á næstu vikum: Hvort félagið vilji áfram vera sjálfstætt, leita til þriðja aðila um að leggja fram tilboð í félagið, eða reyna að komast að vinsamlegu samkomulagi við Alcoa. Síðastnefndi möguleikinn virðist aftur á móti harla ólíklegur um þessar mundir.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.