Bandaríski álrisinn Alcoa lagði fram óvinveitt yfirtökutilboð í helsta keppinaut sinn Alcan í gær og hljóðaði tilboðið upp á 26,9 milljarða Bandaríkjadala. Samruni þessara tveggja félaga, sem bæði eru með starfsemi hér á Íslandi, myndi gera það að verkum að til yrði langsamlega stærsta álfyrirtæki heimsins: Ársvelta sameinaðs fyrirtækis myndi vera 54 milljarðir dollara, framleiðslugetan væri um 30 milljónir tonna af áli og starfsmenn yrðu 188 þúsund talsins í 67 löndum.

Alcoa hyggst fjármagna tilboðið með því að greiða bæði í peningum og hlutafé. Um yrði að ræða 32% yfirverð á bréfum í Alcoa miðað við gengi félagsins að meðaltali undanfarinn mánuð og 20% yfirverð í bréfum í Alcan, ef miðað er við gengið þegar hlutabréfamarkaðir lokuðu í New York síðastliðinn föstudag. Hlutabréf í Alcan höfðu hækkað um 32% á hádegi í gær á meðan gengi bréfa í Alcoa hafði hækkað um 6%.

Tilboðið kemur í kjölfar þess að fyrirtækin hafa í tvö ár átt í stöðugum viðræðum um ýmsa möguleika á hugsanlegri samvinnu eða samruna Alcoa og Alcan, en síðasta haust runnu sameiningarviðræður hjá stjórnum félaganna út í sandinn. Kanadíska fyrirtækið Alcan hvatti í gær hluthafa sína um að bíða eftir því að stjórn fyrirtækisins myndi yfirfara tilboðið.

Í tilkynningu sem Alan Belda, framkvæmdastóri Alcoa, sendi frá sér í gær segir hann að félagið hafi ákveðið að leggja fram kauptilboð í Alcan, þegar ljóst var að samningaviðræður fyrirtækjanna væru ekki að skila neinum áþreifanlegum árangri. Belda taldi það næsta víst að samruni félaganna myndi verða mjög svo hagfelldur fyrir bæði fyrirtækin: Samlegðaráhrifin gætu orðið í kringum einn milljarð dollara, hægt yrði að greiða niður skuldir í mun meira mæli og frekari tækifæri til útrásar myndu skapast.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.