Alcoa Fjarðarál segir það fjarri sanni að fyrirtækið flytji fjármuni úr landi í formi okurvaxta af lánum frá móðurfélaginu.

Segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðarál í yfirlýsingu að hann vilji koma á framfæri ákveðnum athugasemdum vegna frétta undanfarinna daga um meintar háar vaxtagreiðslur Fjarðaráls til móðurfélags síns og skattgreiðslur fyrirtækisins hér á landi.

„Vextir Fjarðaáls af lánum Alcoa voru að meðaltali 0,92% árið 2014 og 2,41% í fyrra. Vaxtaprósentan er ekki ákveðin af Alcoa en greiddir eru millibankavextir auk álags sem reiknað er út af þriðja aðila (Deutsche Bank) af lánum frá móðurfélaginu,“ segir í yfirlýsingunni, sem tekur fram að 230 milljarða króna fjárfesting Alcoa í álverinu hafi verið ein sú dýrasta í Íslandssögunni.

Jafnframt er áréttað að fjármögnunin hafi alfarið verið í samræmi við fjárfestingarsamning sem gerður var við ríkisstjórn Íslands, sem sé öllum aðgengilegur og því ætti innihald hans og framkvæmd ekki að koma neinum á óvart.

Tekið er fram að á árinu 2015 hafi Fjarðarál greitt 1,7 milljarða króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi, á sama tíma og 34 milljarðar króna af útflutningsverðmætum fyrirtækisins hafi runnið til þjóðarbúsins í ýmsu formi. Er þá átti við sem skattar og opinber gjöld, innkaupa á vöru og þjónustu, launa og samfélagsstyrkja.

Tekur hann jafnframt fram að frá árinu 2003 hafi fyrirtækið varið einum milljarði króna til stuðnings ýmsum samfélagsverkefnum hér á landi, þá aðallega á Austurlandi.

„Í fjárfestingarsamningnum eru þær forsendur sem ríkisstjórn Íslands lagði á borðið fyrir Alcoa. Á þeim forsendum tók fyrirtækið ákvörðun um þá stóru fjárfestingu sem Fjarðaál er. Samningurinn er mikilvægur fyrir bæði fyrirtækið og íslenska ríkið því hann innrammar umhverfið um starfsemi Fjarðaáls sem hugsuð er til margra áratuga,“ segir í yfirlýsingu Magnúsar.