Alcoa var rekið með tapi á öðrum fjórðungi ársins, þriðja fjórðunginn í röð sem tap er af rekstri félagsins. Þrátt fyrir þetta hækkuðu bréf félagsins um 7% á markaði í kvöld eftir lokun formlegra kauphallarviðskipta. Bréfin hafa þó lækkað um 71% á einu ári og 16% á þessu ári.

Álverð á öðrum fjórðungi var um helmingi lægra en á sama tímabili í fyrra, sem skýrir að 546 milljóna dala hagnaður í fyrra snerist í 454 milljóna dala tap nú.

Mesta niðursveifla í sögu áliðnaðarins

Þetta kemur fram í frétt MarketWatch, sem vitnar í Klaus Kleinfeld forstjóra Alcoa í tilkynningu. Hann segir að hagræðingaraðgerðir skili árangri og að félagið hafi nú þrek og lækkaðan kostnað til að standast alvarlegustu niðursveiflu í sögu áliðnaðarins.