Alcoa áformar að selja víravél sem starfrækt er í álverinu á Reyðarfirði. Víraframleiðsla er ein af þremur framleiðslulínum í steypuskála fyrirtækisins.

„Það er verið að endurskoða svokallaða víraframleiðslu og hvort skynsamlegt sé að selja hana. Það eru ekki yfirvofandi viðskipti nema að síðar verði,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi. „Við framleiðum, hleifa, málmblendistangir og vír. Þetta snýst um vélina sem framleiðir vír,“ útskýrir Magnús Þór.

Magnús Þór segir að þótt víraframleiðslan yrði seld þýði það ekki að álverið sé að minnka. „Við höldum áfram að framleiða jafnmikið ál og við gerum. Ef af þessu yrði þá myndi þriðji aðili reka víravélina í álveri Alcoa Fjarðaráls. Hann myndi einfaldlega taka við starfseminni,“ segir Magnús Þór. Áhrifin á starfsemina yrðu því sáralítil. „Það er alls ekki verið að minnka framleiðsluna,“ segir hann skýrt.

Magnús Þór segir að salan á víravélinni gæti skapað verðmæti fyrir Alcoa sem gæti þá stutt vð það markmið að minnka framleiðslukostnað fyrirtækisins.

Hann ítrekar að þessi sala sé á algjöru frumstigi. „Það er verið að kynna þetta fyrir hugsanlegum kaupendum,“ segir Magnús Þór og tekur fram að álverið hafi verið í góðum samskiptum við iðnaðarráðuneytið og bæjaryfirvöld í Fjarðarbyggð um þetta.