Álrisinn Alcoa hefur tilkynnt um viðamiklar aðhaldsaðgerðir í sínum rekstri. Er þeim ætlað að bæta stórlega kostnaðarhlið samsteypunnar og á að draga úr árlegum kostnaði um 2,4 milljarða dollara.

Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins á einnig að draga úr peningaútstreymi sem nemur 1 milljarði dollara á árinu 2010 og ná betri nýtingu eiginfjár sem nemur 800 milljónum dollara á árinu 2009.

Þá er samsteypan að draga úr ársfjórðungslegum arðgreiðslum úr 0,17 dollurum á hlut í 0,03 dollara. Með því hyggst félagið ná fram yfir 400 milljóna dollara sparnaði á ári. Þessu til viðbótar hyggst félagið bjóða hlutabréf og skuldabréf til sölu á almennum markaði sem á að skila 1,1 milljarði dollara.