Bandaríski álframleiðandinn Alcoa og kínverska námufélagið Chinalco hafa keypt 12% hlut í námufélaginu Rio Tinto. Þessi kaup félaganna á Rio Tinto eru að töluverðu leyti talin vera vörn þeirra gegn því að BHP Billiton yfirtaki Rio Tinto. Í Vegvísi Landsbankans segir að verði af þeirri yfirtöku myndi sú samsteypa framleiða um þriðjung alls málmgrýtis á heimsmarkaði og jafnframt vera stærsti framleiðandi kola og áls.

Gerir Billiton annað yfirtökutilboð?

Billiton gerði yfirtökutilboð í Rio Tinto í nóvember síðastliðnum en því var hafnað og nú eru einungis fáir dagar þangað til að frestur þeirra til að gera nýtt tilboð rennur út. Þess má geta að Alcoa og Chinalco hafa gefið það út að félögin hyggist ekki gera yfirtökutilboð í Rio Tinto að svo stöddu. Í kjölfar óróleika á hlutabréfamörkuðum vegna lánsfjárkreppunnar hafa margir spáð því að hrina samruna og yfirtaka stærri náma- og málmvinnslufélaga á minni fyrirtækjum í greininni sé framundan.