Bandaríska álfyrirtækið Alcoa og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group (BMG) eru taldir álitlegustu kostir fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Norðausturlandi eins og nú horfir, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Starfshópur sem fulltrúar stjórnvalda, Þingeyjarsveitar, Norðurþings, Skútustaðahrepps og Landsvirkjunar skipa, mun á næstu dögum skila greinargerð til Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra þar sem gerð er grein fyrir frumathugun á þeim möguleikum sem til greina koma vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á orkufrekum iðnaði á Norðurausturlandi, einkum Húsavík.

Martha Eiríksdóttir, formaður fyrrnefnds starfshóps, segir að líkur standi til þess að vinnu við greinargerðina klárist í þessari viku. Hún vill ekki tjá sig um efnisatriði greinagerðarinnar.

„Við höfum verið að fara yfir þá kosti sem þegar eru á borðinu og móta stefnu um hvernig við teljum að eigi að halda áfram með verkefnið, á grundvelli þeirrar viljayfirlýsingar sem unnið er eftir. Samkvæmt henni er stefnt í að 1. október næstkomandi liggi fyrir ákvörðun um uppbyggingu og svo í kjölfarið verði skrifað undir orkusölusamning."

Á næstu mánuðum, fram að 1. október nk., munu þeir sem áhuga hafa á því að byggja upp orkufrekan iðnað á Norðurausturlandi eiga kost á því að gera betur grein fyrir verkefnum, m.a. með tilliti til fjármögnunar og framtíðaráforma. Þar á meðal er bandaríski fjárfestirinn Steve Munson ásamt alþjóðlega tölvufyrirtækinu Hewlett Packard sem sýnt hafa því áhuga að reisa gagnarver á svæðinu.

Alcoa komið lengst

Frummatsskýrslur um umhverfisáhrif fyrirhugaðs álvers Alcoa á Bakka við Húsavík, Kröfluvirkjunar II, Þeistareykjavirkjunar og háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka eru í kynningu þessa dagana. Skýrslurnar hafa þegar verið kynntar á opnum fundum í Aðaldal, Húsavík og Reykjahlíðarskóla. Þá fer einnig fram kynning á Hilton Reykjavík Nordica hóteli 10. maí nk. Unnið hefur verið að rannsóknum vegna álversuppbyggingar á Bakka á grundvelli viljayfirlýsingar Norðurþings, Alcoa og stjórnvalda frá því 16. maí 2006.

Sú viljayfirlýsing var ekki endurnýjuð. Á grundvelli nýrrar viljayfirlýsingar stjórnvalda, Norðurþings, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, frá 22. október í fyrra, hefur verið unnið síðan með það fyrir augum að kortleggja möguleikana sem í boði eru.

Katrín Júlíusdóttir segir að þessi vinna hafi skilað miklu.

„Það hafa margir áhugasamir aðilar komið fram og ljóst að áhuginn á uppbyggingu orkufreks iðnaðar hefur aukist. Ég tel einnig að þessi vinna hafi hreyft við verkefninu og flýtt uppbyggingaráformum hér. Verkefnið er í raun tvíþætt. Annars vegar að fjármagna fyrir framkvæmdir og rannsóknir á jarðhitasvæðum, m.a. á Þeistareykjum. Hins vegar að finna kaupanda að orkunni til að skapa sem mest verðmæti og sem flest störf."

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .