Alcoa, móðurfélag Fjarðaáls á Reyðarfirði, skilaði 137 milljónum dala hagnaði, sem samsvarar um 17 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi 2010. Á sama tímabili í fyrra var 454 milljóna dala tap á rekstrinum. Meginástæðan fyrir hagnaðinum er samkvæmt tilkynningu að álsala til bíla- og umbúðaframleiðenda jókst talsvert á ársfjórðungnum.

Alcoa var fyrst til að skila uppgjöri af þeim félögum sem skráð eru í Dow Jones hlutabréfavísitölunni. Hagnaður félagsins svarar til 13 senta arði á hlut. Rekstrartekjur námu rúmum fimm milljörðum dala samanborið við rúma fjóra milljarða á öðrum fjórðungi í fyrra.

„Við höfum aukið hagnað og tekjur félagsins og viðhaldið sterkri eiginfjárstöðu. Framtíðarhorfur álframleiðslu Alcoa halda áfram að vera mjög góðar. Við teljum að eftirspurn eftir áli muni aukast um 12% á þessu ári en spáð var 10% aukningu í upphafi ársins,“ er haft eftir Klaus Kleinfeld, forstjóra Alcoa, í fréttatilkynningu.