Álframleiðandinn Alcoa Inc., móðurfélag Alcoa á Íslandi, tilkynnti um hagnað á fjórða ársfjórðungi í gær. Félagið spáir því að eftirspurn eftir áli aukist um 12% á árinu 2011. Alcoa telur að eftirspurn verði helst drifin áfram af flugvéla- og bílaframleiðslu.

Hlutabréf í Alcoa lækkuðu um 1,3% eftir lokun markaða í gær. Bréfin hafa hækkað um 0,4% það sem af er viðskiptadegi vestanhafs í dag. Lækkun í gær var rakin til efasemda sérfræðinga um að eftirspurn yrði svo mikil á árinu. Klaus Kleinfeild forstjóri Alcoa segir í samtali við Reuters fréttastofu að ekki sé búist við að eftirspurnin komi frá Evrópu né Bandaríkjunum.

Tekjur félagsins á 4. ársfjórðungi jukust um 4% og námu 5,7 milljörðum dala á tímabilinu. Hagnaður af rekstri nam 258 milljónum dala, samanborið við 266 milljóna dala tap á sama ársfjórðungi 2009.