Bandaríski álrisinn Alcoa, sem m.a. rekur álver Fjarðaráls á Reyðarfirði, tapaði 143 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi. Þetta er viðsnúningur frá sama tíma í fyrra þegar fyrirtækið hagnaðist um 172 milljónir dala. Mestu munar um drjúgan einskiptikostnað upp á 175 milljónir dala sem setti strik í reikninginn. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem Alcoa skilar tapi. Klaus Kleinfeld, forstjóri Alcoa, segir að þrátt fyrir samdrátt í Kína sé þar unnið að uppbyggingu stórra verkefna og muni áhrifin af því líklega færast í bækur álrisans á fjórða ársfjórðungi. Þá lækkaði heimsmarkaðsverð á áli um 17% á tímabilinu.

Fram kemur í umfjöllun bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal að tekjur hafi numið 5,83 milljörðum dala, sem sé nokkuð undir 6,42 milljarða dala tekjum í fyrra.

Á meðal einskiptigreiðslna Alcoa er 85 milljóna dala sáttagreiðsla til álfyrirtækis í Bahrain. Fyrirtækið heitir Aluminum Bahrain og sökuðum stjórnendur fyrirtækisins Alcoa og önnur álfyrirtæki hafi beitt mútum sem hafi híft upp rekstrarkostnað Aluminum Bahrain.

Afkomutölurnar gerðu lítið fyrir fjárfesta enda lækkaði gengi hlutabréfa Alcoa um 1% eftir lokun hlutabréfamarkaðar í Bandaríkjunum.