Tap rekstrarfélagsins Alcoa Fjarðaáls nam um 12 milljörðum króna í fyrra miðað við 900 milljóna króna tap árið 2018. Á árunum 2010-2017 var samfelldur hagnaður hjá félaginu. Raforkuverð sem Alcoa greiðir hefur verið lægst íslenskra álvera en endurskoðunarákvæði er í samningnum sem tekur gildi árið 2028. Móðurfélagið hér á landi, Alcoa á Íslandi ehf., hefur hins vegar verið rekið með samfelldu tapi frá upphafi, ekki síst vegna umtalsverða vaxtagreiðslna af lánum frá erlendu móðurfélagi Alcoa.

Vaxtagreiðslurnar lækkuðu hins vegar þónokkuð á síðasta ári, úr 8 milljörðum króna árið 2018 í tæplega 3 milljarða króna í fyrra. Ástæðan er að skuld Alcoa á Íslandi við samstæðuna erlendis var lækkuð í árslok 2018 um nærri 1,2 milljarða dollara, hátt í 130 milljarða króna, með því að breyta þeim hluta skuldarinnar í hlutafé.

Alcoa á Íslandi skuldar Alcoa nú tæplega 700 miljónir dollara, jafnvirði um 85 milljarða króna og námu vextir af láninu 3,45% í árslok 2019. Magnús Þór Ásmundsson, þáverandi forstjóri Alcoa á Íslandi, sagði í viðtali við Morgunblaðið í fyrra að ef áætlanir félagsins gengju eftir væri útlit fyrir að félagið hæfi að greiða tekjuskatt hér á landi á næstu árum.

Sjá einnig: Met tap hjá stóriðjunni

Móðurfélagið, Alcoa í Bandaríkjunum, var einnig rekið með tapi á síðasta ári. Tapreksturinn hefur haldið áfram á þessu ári. Hlutabréfaverð Alcoa hefur lækkað um hátt í 50% undanfarið ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .