Tap bandaríska álrisans Alcoa, sem meðal annars rekur álver á Reyðarfirði, nam 497 milljónum Bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við hagnað upp á 303 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en tapið nemur alls 61 centi á hvern hlut samanborið við 37 centa hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem tap er á rekstri Alcoa.

Tekjur félagsins á tímabilinu námu 4,1 milljarði dali og lækkuðu um 36% en þær námu um 6,5 milljörðum dala á sama tíma í fyrra.

Tap Alcoa er nokkuð umfram spár greiningaraðila á vegum Bloomberg fréttaveitunnar sem gert höfðu ráð fyrir tapi að andvirði 56 centum á hvern hlut.

Klaus Kleinfeld, forstjóri Alcoa segir þó í tilkynningu frá félaginu að hann hafi fulla trú á áliðnaðinum og félagið muni rétta úr kútnum um mitt þetta ár. Hann sagði álverð þó aldrei hafa verið lægra en nú en félagið hefði mætt minnkandi eftirspurn og lækkun álverðsins með stórfelldum niðurskurði á arðgreiðslum, starfsfólki og framleiðsluþáttum.

Nú þegar hefur Alcoa sagt upp um 15.000 manns og minnkað framleiðslu um 20% frá miðju síðasta ári samkvæmt frétt Bloomberg fréttaveitunnar.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hefur álverð lækkað um 50% á seinni helmingi ársins 2008 en í júlí náði álverð hámarki þegar tonnið af áli kostaði 3.380 dali. Þá hefur álverð lækkað um 9% það sem af er ári en við lok markaða í dag kostaði tonnið af áli 1.392 dali.