Alcoa greindi frá því í dag að fyrirtækið muni styrkja íslenskar rannsóknir á djúpborunum til raforkuframleiðslu. Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að það telur að djúpboranir gætu verið mikilvægt skref fyrir hagnýta notkun gufuafls um allan heim.

Samstarfsaðilar um djúpboranir á Íslandi munu með stuðningi Alcoa kanna hagkvæmni þess að vinna orku og efnasambönd úr háhitasvæðum með því að bora niður á mun meiri hita og þrýsting en áður hefur verið gert. Talið er að slíkar borholur gætu framleitt allt að tíu sinnum meiri raforku en þær borholur sem notaðar eru í dag.

Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði sagði í tilkynningu: "Þetta er mjög spennandi verkefni og það er verulega ánægjulegt að taka þátt í að gera það að veruleika. Við höfum mikinn áhuga á verkefninu þar sem við erum meðal annars að skoða hagkvæmni þess að reisa álver á Norðurlandi. En verkefnið getur jafnframt orðið mikil lyftistöng fyrir Ísland á alþjóðavettvangi og vakið athygli á sérþekkingu okkar og reynslu við nýtingu jarðvarma."

Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa Inc. sagði við undirritun samningsins: ?Við lítum þannig á að við séum að bora fyrir framtíðina. Heimsbyggðin þarf nauðsynlega að auka nýtingu jarðhita til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er mjög spennandi verkefni fyrir Alcoa, því ef niðurstaðan verður jákvæð opnast möguleikar á að tvinna saman vistvæna raforkuframleiðslu, sérþekkingu okkar á álframleiðslu og jákvæð áhrif áls á losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis við samgöngur, sem myndi skipta verulega máli varðandi umhverfismál í alþjóðlegu samhengi. Ef þetta gengur vel ætti að verða hægt að nota djúpborun um allan heim þar sem jarðhita er að finna.?

Samstarfsaðilar um djúpboranir á Íslandi eru auk Alcoa: Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja hf. og Orkustofnun.

Við djúpborun er gert ráð fyrir að bora niður á 4-5 km dýpi þar sem hitastigið er um 400-600°C. Flestar jarðhitaholur eru nú um 2 km á dýpt og blása gufu sem er um 300°C. Venjulegar borholur standa í dag undir framleiðslu á um 5 megavöttum af raforku. Ef unnt reynist að bora eftir 450°C heitri gufu og sé miðað við að upp komi 0,67 rúmmetrar af gufu á sekúndu, gæti slík hola staðið undir framleiðslu á 40-50 megavöttum af rafmagni.

Orkufyrirtækin þrjú fjármögnuðu forkönnun fyrir verkefnið sem lauk árið 2003. Þau munu hvert um sig bora eina 3,5 ? 4 km djúpa holu á sínu svæði. Gert verður ráð fyrir að mögulegt verði að dýpka þær holur niður á 4,5 ? 5 km dýpi. Ein holan verður síðan valin til dýpkunar í samstarfi fyrrgreindra aðila. ICDP (International Continental Scientific Drillig Program); alþjóðlegur sjóður sem styrkir vísindaboranir um allan heim og bandaríski vísindasjóðurinn NSF (National Science Foundation) munu einnig veita rannsóknastyrki til verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að fyrsta holan verði boruð við Kröflu á næsta ári og að hún verði prófuð árið 2009. Tvær nýjar 4 km djúpar holur munu verða boraðar í Hengli og á Reykjanesi árin 2009-2010 og síðan dýpkaðar. Áætlanir gera ráð fyrir að tilraunaorkuvinnslu ljúki árið 2015 eða þar um bil segir í tilkynningu.