Alcoa Fjarðarál veitti samanlagt yfir 80 milljónir króna í styrki til ýmissa verkefna á Austur- og Norðurlandi á síðasta ár, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Jafnframt kemur fram að styrkirnir séu veittir til félagasamtaka og fjölbreyttra verkefna sem er ætlað að auðga og efla sjálfbært samfélag. Frá árinu 2003 hefur Alcoa styrkt slík verkefni um samtals ríflega 270 milljónir króna.

Alcoa Fjarðaál veitti yfir 30 styrki til ýmissa málefna á árinu 2007 að upphæð samtals um 26 milljónir króna. Stærsti einstaki styrkurinn var til skíðasvæðisins í Stafdal sem er sameiginlegt skíðasvæði Seyðfirðinga og Fljótsdalshéraðs, en þar er fyrrum upplýsingamiðstöð Fjarðaáls og Fjarðabyggðar orðin skíðaskáli.

„ Samfélagssjóður Alcoa styður samfélagsverkefni og góðgerðastarfsemi víða um heim. Árið 2007 veitti sjóðurinn jafnvirði ríflega þriggja milljarða króna til eflingar rúmlega 200 samfélaga þar sem Alcoa er með starfsemi. Samfélagssjóðurinn er sjálfstæð stofnun sem var sett á fót árið 1952. Eignir sjóðsins nema um 35 milljörðum króna, en frá stofnun hefur hann veitt um 31 milljarð króna í styrki. Frá árinu 2003 hefur sjóðurinn veitt um 117 milljónir króna í styrki til ýmissa verkefna á Íslandi,” segir í tilkynningu.