Mjög misvísandi skilaboð hafa verið á lofti varðandi framtíð hugsanlegs álvers Alco á Bakka við Húsavík.

Þannig sagði Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að álversuppbygging á Bakka við Húsavík væri ekki á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri hjá Alco Fjarðaráli, segir aftur á móti að ekkert hafa breyst í stöðunni.

„Við erum að vinna samkvæmt viljayfirlýsingu við ríkisstjórnina og sveitarfélagið fyrir norðan. Iðnaðarráðherra lýsti því yfir í frétt í gærkvöldi að sú viljayfirlýsing stæði. Meðan svo er höldum við ótrauð áfram þeim verkefnum sem við erum í fyrir norðan. Við erum að hefja umhverfismat og einnig er verið að vinna að sameiginlegu umhverfismati fyrir álver og orkuöflun samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra á sínum tíma. Meðan við erum með viljayfirlýsingu vinnum við með stjórnvöldum og sveitarfélaginu að þessu máli af heilum hug,” segir Erna.

Hún segir Alco ekki hafa tekið neina ákvörðun um að hætta við áform um byggingu álvers á Bakka þrátt fyrir erfiða stöðu á álmörkuðum í heiminum í dag.