Góður taktur er í rekstri tónlistarútgáfunnar Öldu Music, en hagnaður hennar á sínu öðru fulla rekstrarári fyrir skatta og afskriftir, nam um 42 milljónum króna í fyrra. Þá námu tekjur 184 milljónum króna og jukust þær um tæplega 15% frá fyrra ári. Alda, sem er í eigu tónlistarmannanna Ólafs Arnalds og Sölva Blöndal auk annarra, keypti öll útgáfuréttindi Senu í júlí 2016. Í því fólst að Alda eignaðist útgáfuréttindi að stórum hluta þeirrar íslensku tónlistar sem gefin hefur verið út síðastliðin ár og áratugi.

Sölvi Blöndal, stjórnarformaður Öldu Music, segir það mikið gleðiefni hversu vel rekstur tónlistarútgáfunnar gengur.

„Það eru mikil verðmæti í góðri tónlist enda eitthvað sem enginn getur hugsað sér að vera án og er hluti af daglegu lífi okkar allra. Það er að okkar mati enn þörf fyrir útgáfufyrirtæki sem styðja við listamenn og vinna að því að koma tónlist þeirra á framfæri. Við sem stöndum að Öldu erum tónlistarmenn og það eru mikil forréttindi að eiga og reka fyrirtæki í kringum það sem maður hefur ástríðu fyrir. Ekki síst þegar það gengur svona vel. Eitt af meginmarkmiðum okkar var að aðlaga íslenska tónlistarútgáfu að þeim miklu breytingum sem hafa átt sér stað á síðustu árum í miðlun afþreyingarefnis. Streymismarkaðurinn hefur verið að vaxa jafnt og þétt, og meirihlutinn af tekjum tónlistarbransans kemur núna frá streyminu. Vöxturinn í stafrænni sölu hjá okkur nemur tugum prósenta á milli ára."

Sölvi segir að það sem hafi helst komið á óvart í uppgjöri síðasta árs, sé hversu vel það gekk að selja efnislegar plötur og þá sérstaklega vínyl. „Þrátt fyrir að fólk hlusti mest á tónlist í gegnum streymið, þá kaupir það oft einnig efnislegar plötur til þess að eiga sem safngrip."

Sölvi kveðst bjartsýnn fyrir árið 2019 og reiknar með áframhaldandi vexti, þá sérstaklega í stafrænni sölu. „Spotify hefur verið að auka áskrifendafjölda hér á landi verulega síðustu ár, þó að það hafi aðeins verið að draga úr þeirri aukningu undanfarið. Ég vonast eftir því að notkun streymis aukist hjá eldri kynslóðum og tel að það liggi mikil tækifæri þar."

Rúmlega 40 útgáfur á döfinni í ár

Alda hefur frá því að hún var sett á laggirnar gefið út fjölmargar hljómplötur, bæði plötur nýrra og starfandi listamanna en einnig hefur fjöldi sígildra platna verið endurútgefinn. Á yfirstandandi ári eru fyrirhugaðar rúmlega 40 útgáfur á vegum Öldu Music.

„Þegar við settum Öldu á fót var hugmyndin sú að Alda Music yrði leiðandi í tónlistarútgáfu og í því að selja tónlist á nýjan hátt. Efnið sem við erum að gefa út er mjög fjölbreytt og góð breidd í listamannahópnum sem starfar með okkur. Við erum ekki hrædd við það að fara nýjar leiðir í markaðssetningu. Eitt helsta markmið okkar er að búa til skemmtilegt, ögrandi og íslenskt efni, sem eftir atvikum getur náð flugi erlendis. Heimurinn er orðinn smærri en hann var í kjölfar tæknibreytinga," segir Sölvi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um gjaldskrárhækkun og rekstrarvanda Íslandspósts.
  • Íslenskur drykkjavöruframleiðandi stefnir að framleiðslu á kannabisdrykk.
  • Þó nokkrir forstjórar félaga sem skráð eru í Kauphöllina hafa látið af störfum undanfarin misseri.
  • Áhrif lífskjarasamninga á húsnæðismarkað eru óljós að sögn hagfræðings.
  • Ítarlegt viðtal við framkvæmdastjóra LSR.
  • Íslenskt sprotafyrirtæki framleiðir íslenskt „jerky“
  • Nýr framkvæmdastjóri markaðssviðs ORF Líftækni er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um þriðja orkupakkann.