*

mánudagur, 13. júlí 2020
Fólk 3. desember 2019 11:30

Aldeilis ræður Hrönn Blöndal

Hrönn Blöndal Birgisdóttir ráðin til að sinna vefhönnun, hugmyndasmíði og samfélagsmiðlun hjá auglýsingastofunni Aldeilis.

Ritstjórn
Hrönn Blöndal Birgisdóttir mun skipta tíma sínum í nýja starfinu milli Reykjavíkur og Berlín.
Aðsend mynd

Auglýsingastofan Aldeilis hefur bætt við sig nýjum starfsmanni, Hrönn Blöndal Birgisdóttur, en hún mun hún sinna fjölbreyttum verkefnum þvert á vef- og auglýsingadeild. Verkefnin eru á sviði vefhönnunar, hugmyndasmíði og samfélagsmiðlunar. Síðustu ár hefur Hrönn verið búsett í Barcelona og Berlín og sinnt ýmsum störfum hjá tímaritum og á sviði tísku, menningar og lista.

Hrönn hefur m.a. starfað við greinaskrif hjá tímaritinu METAL í Barcelona og síðar NUDE magazine hér á Íslandi. Hún hefur einnig séð um samfélagsmiðla og markaðsráðgjöf fyrir ýmis fyrirtæki. Hrönn er frá Akureyri og útskrifaðist af myndlistabraut í VMA árið 2010. Þaðan lá leiðin í til Barcelona en hún útskrifaðist með BA í tískumarkaðsfræði (fashion marketing & communication) frá IED árið 2015. Hrönn er með MA í sjónrænni mannfræði (visual anthropology) frá Freie Universitat í Berlín.

Mastersnámið sem hún lauk, visual & media anthropology, snýst um að miðla mannfræðirannsóknum með sjónrænum hætti, svo sem í gegnum heimildarmyndir, ljósmyndir eða önnur listform. Sú þekking mun nýtast í starfinu sem Hrönn sinnir nú hjá Aldeilis, þar sem henni er ætlað að koma með ferska sýn á það hvernig hægt er að miðla til fólks.

Hún hefur brennandi áhuga á öllu sem við kemur kvikmyndum, ljósmyndun og tísku. Hrönn deilir tíma sínum milli Reykjavíkur og Berlín hvar hún býr ásamt kærasta og ketti.

„Hrönn býr yfir afar fjölbreyttri þekkingu og reynslu og þannig viljum við hafa það hér á Aldeilis.“ segir Páll Guðbrandsson framkvæmdastjóri. „Hrönn hefur komið inn með mikinn kraft og sköpunargleði hingað á stofuna og við erum í skýjunum með þann hóp sem okkur hefur tekist að setja saman hér á Hverfisgötunni. Það má segja að hér séum við sérhæfð í fjölhæfni enda verið að vinna gríðarlega fjölbreytt verkefni fyrir okkar kúnna síðasta árið og Hrönn kemur með frábæra þekkingu og reynslu um borð.“

Páll lítur björtum augum til komandi árs. „Það hefur mikið verið talað um að auglýsingabransinn eigi undir högg að sækja í núverandi tíðarfari en ég tel að þetta sé bara hluti af þróuninni. Það má vera að það módel sem hafi verið ráðandi sé í einhverri varnarbaráttu en ég held að allar stofur, stórar og smáar, aðlagi sig fljótt. 2020 verður held ég mjög skemmtilegt ár í okkar geira, auglýsingastofur og fyrirtæki þurfa að nú sem aldrei fyrr að sýna þor og sköpunargleði. Það er svo mikilvægt að læra alltaf eitthvað nýtt. Hvort sem það er að prófa í fyrsta sinn gamla góða markpóstinn eða ná tökum á frasanum „Ok Boomer“.“

Aldeilis er alhliða auglýsingastofa sem jafnframt rekur öfluga vefdeild. Aldeilis var fyrsta stofan sem sérhæfði sig í gerð Wordpress vefa. Í ár er stofan sjö ára og hefur húsakynni á Hverfisgötu 4.