*

þriðjudagur, 2. mars 2021
Fólk 20. október 2020 10:40

Aldís til Póstsins frá Advania

Nýr vörustjóri innlendra vara og þjónustu hjá Íslandspósti, Aldís Björgvinsdóttir, var áður verkefnastjóri hjá Advania.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Aldís Björgvinsdóttir hefur verið ráðin í starf vörustjóra innlendra vara og þjónustu á þjónustu- og markaðssviði Póstsins. Aldís hefur þegar tekið til starfa og ber ábyrgð á innlendu vöruframboði Póstsins sem og afkomu af innlendum vörum.

Aldís var síðast hjá Advania þar sem hún sinnti starfi verkefnastjóra. Þar áður starfaði hún hjá LS Retail, einnig sem verkefnastjóri og þá hefur hún starfað hjá Azazo, Arion banka og Berkshire Mortage Finance við góðan orðstír. Aldís er með BS próf í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig stundað nám við University of Massachusetts Boston.

„Það er frábært að vera komin til liðs við Póstinn, ég er sjálf búin að upplifa miklar breytingar á fyrirtækinu sem áhorfandi síðasta árið og hlakka mikið til að taka þátt í að breyta því enn frekar til framtíðar,“ segir Aldís Björgvinsdóttir.

„Það eru gríðarlega stór verkefni fyrir framan okkur og ég er þess fullviss að ég geti hjálpað fyrirtækinu að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Ég legg mikla áherslu á að samskipti séu opin og að þjónusta sé í fyrirrúmi en það samsvarar sér vel við það umhverfi sem ríkir hjá Póstinum.“

Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdarstjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins segist vera mjög ánægð með að hafa fengið Aldísi í starfið því hún búi yfir mikilli reynslu og drífanda.

„Ég hlakka mikið til að vinna meira með henni en hún er mjög fús að deila sinni reynslu sem og að víkka sjóndeildarhringinn, hún er strax orðin verðmætur hluti af liðinu okkar og mun hafa mikil áhrif á mörg stór verkefni sem eru framundan,“ segir Sesselja.

„Við erum á fullu að endurskoða þjónusturnar okkar sem og vörur en markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð sem við höfum verið á síðasta árinu og veita þannig viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Margar spennandi nýjungar eru í vinnslu og má segja að við munum umbylta þjónustunni á næstu mánuðum.“