Flugfélög út um allan heim eru nú í óða önn að bregðast við auknum eldsneytiskostnaði. Mörg flugfélög hafa reyndar átt erfitt uppdráttar frá síðasta sumri og hafa í kjölfarið leitað leiða til hagræðingar.

Mörg flugfélög hafa lagt gömlum vélum, lagt niður áætlunarleiðir, sagt upp starfsfólki, tekið upp aukagjöld á borð við farangursgjald og fleira í þeim dúr.

Fréttavefur BBC greinir frá því í dag að ástralska flugfélagið hefur hækkað alla flugmiða sína um fimm ástralska dali (tæpar 400 krónur) en félagið mun einnig leita annarra leiða til hagræðingar.

Bandarísku flugfélögin United Airlines og US Airways hafa bæði lagt á 15 dollara farangursgjald fyrir fyrstu tösku en lægra fyrir fleiri töskur.

Continental Airlines tilkynnti í síðustu viku um stórfelldan niðurskurð en félagið hyggst segja upp um 3.000 manns og leggja tæplega 70 vélum á næstu misserum.

Í gær tilkynnti Finnair að félagið hygðist segja upp um 500 manns og tilkynnti í leiðinni að hækkandi olíuverð vera að sliga félagið um of.

Þá er einnig greint frá því að flugmiðar í Bandaríkjunum hafa hækkað að meðtali um tæpa 20 Bandaríkjadali frá áramótum.

„Flugfélögin fara alveg eftir bókinni um þessar mundir, það er ekkert frítt lengur,“ segir Tom Parsons, forstjóri ferðasíðunnar Bestfares.com

„Þú ferð með áldósinni í loftið en borgar allt annað aukalega,“ bætti hann við.