Algeng réttlæting fyrir álagningu auðlegðarskattsins er sú að eðlilegt sé að breiðu bökin beri aukna skatta og að það sé nauðsynlegt vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Svo er gjarnan vísað til óska útlendra auðmanna um að þeir greiði sjálfir meira í skatta.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir í grein í Viðskiptablaðinu, að því markmiði að breið bök beri þyngstar byrðar var náð í því skattkerfi sem hér var fyrir umbyltingu þess á síðustu árum, í formi hlutfallslegra tekjuskatta einstaklinga með frítekjumörkum, án eignarskatta. Þannig greiddu þeir sem hærri tekjur höfðu fleiri krónur í skatta og hærra hlutfall launa sinna en þeir sem höfðu lægri tekjur.

Til fróðleiks tekur hann sem dæmi að eignir bandaríska milljarðamæringsins Warren Buffett voru metnar á tæpa 6.000 milljarða króna og heildartekjur á síðasta ári námu rúmum 7 milljörðum. Skattgreiðslur Buffet námu 800 milljónum það ár, eða 17% af skattskyldum tekjum (11% af heildartekjum).

Finnur bendir á að ef Buffett byggi í vesturbæ Reykjavíkur, hann borgaði skatta hér á landi og að stofn hans til auðlegðarskatts væri matsverð eigna, þá hefði auðlegðarskattsgreiðsla hans fyrir síðasta ár verið um 90 milljarðar og myndi hækka í um 120 milljarða á næsta ári ef breytingatillögur verða að lögum. Það er um það bil þrettánföld sú upphæð sem hann hafði í tekjur þetta ár.

Grein Finns Oddssonar