„Þetta eru kannski ekki svo háar upphæðir þegar þú setur þetta í samhengi við það sem lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta á hverju ári, en í sögulegu samhengi fyrir þetta umhverfi eru þetta gríðarlega stórar upphæðir,“ segir Einar Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur hjá Arion banka, í samtali við Fréttablaðið .

Þrír nýir framtakssjóðir hafa tekið til starfa að undanförnu og nemur fjárfestingargeta þeirra samtals 11,5 milljörðum króna. Fjárhæðinni verður varið til fjárfestinga á næstu þremur til fimm árum, en sjóðirnir heita Eyrir sprotar, SA framtak og Frumtak II.

Einar Gunnar segist vongóður um að þróunin verði viðvarandi. „Þetta er í raun í fyrsta skipti frá landnámi þar sem staðan er orðin sú að það er samkeppni, ekki bara um fjármagnið, heldur á milli sjóðanna um fjárfestingar.“

Salóme Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Klak Innovit, tekur undir með Einari Gunnari og segir sjóðina breyta landslaginu fyrir frumkvöðla á Íslandi. Áður hafi Tækniþróunarsjóður borið mesta þungann af fjárfestingum á sprotastigi, en það sé ekkert í líkingu við þær fjárhæðir sem nú séu komnar í spilið.